Um Músíkstofuna

Hafa samband

Mínerva Margrét Haraldsdóttir

Stofnandi og eigandi
Hafa samband

Um mig

Snemma hneigðust hugur og hjarta til tónlistarinnar, því mikið var sungið og trallað, bæði á heimilinu og líka í sveitinni í Eyjafirðinum. Þar sungum við keðjusöngva og þrírödduð lög úti á túni með hrífurnar að raka dreifar.
Ég byrjaði að læra á píanó 10 ára gömul hjá Hauki Guðlaugssyni á Akranesi og þá var ekki aftur snúið með það sem koma skyldi: -það að gera tónlist að að aðaláhugamáli og síðar námi og atvinnu. Tónlistin var meira en áhugamál, nám og vinna: hún var líka mikil tilfinningaútrás, gaf orku og hugarró, allt eftir hvað þörf var fyrir þá stundina. Þegar ég heyrði fyrst um fagið: “music therapy”, sem hefur verið þýtt á íslensku sem: músíkmeðferð, vissi ég að þetta yrði ég að læra. Draumurinn rættist loksins á árið 2010, með flutningi til Danmerkur og námi í “musikterapi” við Álaborgarháskóla með útskrift í júní 2015. Fyrsta árið mitt hér heima, vann ég í afleysingum hjá Tónstofu Valgerðar og fékk ómetanlega reynslu í kennslu og meðferð barna með sérþarfir. Þetta voru börn með einhverfu, ADHD, þroskahömlun, hreyfihömlun og fleira. Tónlistin gefur þeim mikla gleði, þroska, þjálfun og er fyrst og fremst sjálfsefling fyrir þau.

Starfsreynsla

Ég vann við píanó- og forskólakennslu í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar samhliða kennaranáminu og áfram til ársins 1987. Ég tók einnig að mér kór íbúa á Skálatúni í nokkur ár.

Þá lá leiðin út á land og ég starfaði sem skólastjóri við eftirfarandi tónlistarskóla: Tónlistarskólinn á Kirkjubæjarklaustri (1987-1989), Tónlistarskólinn Garði (1989-1995), Tónlistarskóli Norðurhéraðs, Brúarási (1995-1997), Tónlistarskólinn á Eiðum (1997-1999), Tónlistarskóli Reykjahlíðar, Mývatnssveit (1999-2000). Kennslugreinar: Píanó, blokkflauta, forskóli, gítar, tónfræði, tónheyrn, saga, sem og stjórnun barnakóra og bjöllukóra.

Ég hélt aftur á bernskuslóðirnar, flutti til Akraness og starfaði þar sem píanókennari og við kennslu tónfræðagreina 2000-2010. Einnig stjórnaði ég í nokkur ár bjöllukór við Akraneskirkju.
Ég tók að mér kennslu tónfræðagreina við Listaskóla Mosfellsbæjar (2007-2010).

Eftir að náminu lauk í Danmörku 2015 tók ég að mér afleysingar við Tónstofu Valgerðar (2015-2016). Vann síðan við tónmenntakennslu í Lágafellsskóla veturinn 2016-2017. Í september árið 2016 stofnaði ég Músíkstofu Mínervu, þar sem ég hef starfað fram til dagsins í dag með hlutastarfi við Tónstofu Valgerðar.

Menntun

• Músíkmeðferð við Álaborgarháskóla frá ág. 2010, útskrift í júní 2015
• Tónmenntakennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1984
• Píanónám á mið- og framhaldsstigi 1974-1979 við Tónskóla Sigursveins.

Hæ $name$ , fyrirspurn þinni verður svarað innan 24 tíma
Úps, er netfangið rétt?

Staðsetning - Skipholt 40, 105 Reykjavík